Um okkur

Stúdíó R57 byrjaði sem lítil sæt hugmynd í eldhúsinu okkar á Rauðalæk 57, og þegar að ég segi okkur þá meina ég mér (Karlottu) og Skúla. Úr varð þetta hönnunarstúdíó sem leggur áherslu á hönnun með tilgang, sem sameinar fegurð og boðskap.

Skúli er grafískur hönnuður og er sífellt að fá frumlegar hugmyndir að vörum og verkefnum. Ég fæ síðan það hlutverk að koma röð og reglu á sköpunarkraftinn og hrinda hugmyndunum í framkvæmd.

Punktaleturs-veggplakötin eru ein þessara hugmynda sem við féllum bæði fyrir enda nær sú hönnun að gefa af sér á margvíslegan hátt. En engar áhyggjur þetta er aðeins ein af mörgum hugmyndum sem hafa orðið til við eldhúsborðið í Laugardalnum og við bíðum spennt eftir að sýna ykkur þær með tíð og tíma.

Veggplakötin eru í senn falleg og stílhrein hönnunarvara inn á heimilið og tilefni til vitundarvakningar á því að það njóta ekki allir þeirra forréttinda að sjá. Vegna þessa þá vildum við auðvitað vinna þetta verkefni í samvinnu við Blindrafélagið. Það stóð ekki á svörum hjá þeim að vilja fara í samstarf. Því látum við þau njóta góðs af og rennur hluti af ágóðanum beint til þeirra til að styrkja þeirra mikilvæga starf.

Punktaletur

Punktaletrið er upphleypt letur sem gerir blindum og sjónskertum notendum kleift að lesa með því að renna fingri yfir letrið. Við viljum með þessu verkefni opna augu okkar sem sjáum gagnvart þessu gríðarlega mikilvæga letri og sýna fegurðina sem felst í því. 

Það er því engin tilviljun að fyrsta vörulínan „ástin er blind“ leit dagsins ljós á alþjóðlegum
degi hvíta stafsins 15. Október 2022.

Við fyrstu sýn getum við flest ekki lesið hvað stendur eins og á hefðbundnum plakötum með tilvitnunum og setningum sem við þekkjum öll. Úr verður því skemmtilegur leikur að nýta punktaletursstafrófið sem fylgir með plakatinu til þess að lesa út hvað stendur á plakatinu.

Sérstakar þakkir fara til Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu fyrir að fræða okkur um hina ýmsu þætti sem tengjast punktaletri. Ásamt því viljum við þakka Blindrafélagið fyrir að hafa trú á verkefninu og styðja okkur áfram í okkar fyrstu skrefum.

Við vonum að þið njótið vel og að plakatið sómi sér vel á heimili ykkar.

Bestu kveðjur

Karlotta og Skúli